sunnudagur, október 20, 2002

N og aftur til hamingju Jenný. Ég hef verið að reyna að setja myndir inn á blogger og leitað að aðstoð en komst svo að því að bloggerinn býður ekki upp á þannig vistun gagna vegna stærðar þeirra. Það væri sjálfsagt mun meira pláss en bloggerinn réði vel við og öll vinna yrði hægari við að setja inn texta og skoða gamla texta o.s.frv. Það sem blogger stingur upp á og ég mæli einnig með er að þú startir heimasíðu dömunnar í barnaland.is og setjir þar inn myndir. Þegar þú hefur startað þeirri heimasíðu þá tengir þú okkur við hana í gegnum bloggerinn.

Hér er t.d. heimasíða sem vert er að skoða

föstudagur, október 18, 2002

Guðna og Guðjóni Þórðar sinnaðist þegar Gaui var landsliðsþjálfari út af einhverri ferðatilhögun sem Guðni gerði athugasemd við. Guðjón setti hann út í kuldann og það gekk það vel hjá Gauja að hann komst upp með að ýta honum til hliðar. Eftir að Atli tók við hefur hann ekki tekið af skarið og valið Guðna sem er algjörlega óskiljanlegt og sorglegt að tveir miðlungs þjálfarar hafi eyðilagt landsliðsferil fyrrum landsliðsfyrirliða og stórkostlegs ´knattspyrnumanns. Aftur á ´móti er Eyjólfur meiddur eins og er en Atli var búinn að biðla til hans. Hins vegar er hann orðinn varamaður hjá sínu liði í dag Hertu Berlín en Guðni er fyrirliði og fyrsti maður til að vera valinn í liðið hjá Bolton. Þetta svarar vonandi spurningum þínum Hrefna mín en það er óvíst að ég verði nokkursstaðar fullur á almannafæri þessa helgina en það er þó algerlega óvíst. Fyrst að það verður ekkert partý hjá E bekknum þá liggur maður væntanlega bara heima og grætur.

fimmtudagur, október 17, 2002

Góð hugmynd Bibbi! En landsliðið rétti aðeins úr kútnum í gær en samt sem áður verður þessi leikur fljótur að gleymast ef það gengur illa í næsta leik því Íslendingar voru jú einum manni fleiri mest allan tímann. Arnar Þór er víst sonur formanns landsliðsnefndar segir bróðir hans Ívars Ingimarssonar og ætti líklega ekki að vera þarna. Guðni Bergson er einfaldlega besti og farsælasti atvinnumaður sem við höfum eignast í fótbolta. Hann er fyrirliði liðs í ensku úrvalsdeildinni og eini íslenski leikmaðurinn sem er virkilegur leiðtogi í því liði sem hann leikur með. Aðdáendur Bolton dýrka manninn og flestir Englendingar sem eitthvað fylgjast með fótbolta hlæja að því að Guðni skuli ekki eiga sæti í íslenska landsliðinu. Ég get samt ekki hlegið að því.
Það vantar greinilegan sterkan bakvörð þarna inn fyrir Arnar og reyndar einnig í hina stöðuna og ég verð að segja að ég veit aðeins um einn sem getur leikið báðar stöðurnar ef ekki í sama leiknum þá a.m.k. hvora heldur sem er. Hann ætti tvímælalaust að eiga sæti í liðinu enda betri en þessir báðir sem eru í dag, Bjarni og Arnar. Hvernig væri að senda Atla myndband með HELGA HLYN.

miðvikudagur, október 16, 2002

Var ekki búið að fresta partýi um ófyrirséða framtíð? Ég er að vinna hér uppí skóla því nemendaráðið er með ball fyrir 6. og 7. bekk. Ég uppgötvaði það of seint að ég missi víst af landsleiknum en það verður sjálfsagt að hafa það. Ég skipti nú oft á milli stöðva þegar ég horfði á Skotaleikinn enda var það ömurlegur leikur af okkar hálfu. Þetta landslið okkar er í hálfgerðu rugli held ég. Hvað segiði um það?
Ritþjálfar eru mikið notaðir hér á Egilsstöðum og þykja nokkuð skemmtilegir. Þetta eru nauðsynleg tæki í því að þjálfa tölvukunnáttu þ.e.a.s. fingrasetningu og ritun á tölvur. Það hlýtur að markast af forritunum sem hver skóli notar hve skemmtilegir þessir ritþjálfar eru. Ég hef reyndar ekkert notað þá í unglingadeildinni en yngri bekkir og sérstaklega miðstigið nýtir þá mikið.

Hafið það gott og blessað

Bibbi

þriðjudagur, október 15, 2002

Til hamingju Jenný!
Til hamingju með stúlkuna Jenný. Það eru væntanlega myndir á leið inn á bloggerinn eða hvað?????