sunnudagur, nóvember 10, 2002

Nú er kominn sunnudagur og allir búnir að heimta heilsuna á ný! Ég segi nú bara eins og Greifarnir: Vonandi skemmtuð þið ykkur vel upp á palli, út í tjaldi.....

En nóg um það.

Nú fer maður að telja niður 10 vikur

föstudagur, nóvember 08, 2002

Eitthvað sýnist mér Ásgrímur vera búinn að vinna í útivistarleyfinu. Hann hefur verið ægilega góður við Lind nýlega. Ég sem hélt að hann væri búinn að gefa leyfið upp á bátinn. Partýið ætti að verða fínt úr því að allir eru komnir með útivistarleyfi. Ég hlakka til að koma suður og mæta í saumaklúbba og partý eftir áramótin enda í 3ja mánaða fæðingarorlofi....jibbý
Góðan daginn. Hverjir ætla að mæta í partýið til heilagrar Maríu?

fimmtudagur, nóvember 07, 2002

Ég er með hugmynd að saumaklúbb. Þið fjárfestið í vefstól og segulbandstæki og hafið þetta í kjallaranum hjá mér. Svo komiði bara þegar þið megið vera að og vefið smá bút í vefstólnum og lesið eina kjaftasögu inn á segulbandið og farið svo. Svona getur þetta rúllað bara og hver getur komið þegar hann vill og hlustað á kjaftasögur og bætt svo við inn á segulbandið eftir þörfum. Í lífi nútímakonunnar er nánast ómögulegt að koma hefðbundnum saumaklúbbum inn í skipulagið hvort sem er. Þegar teppið væri fullofið myndi ég svo selja það í Kolaportinu uppí leiguna.
Það er nú ekki nema von að Íris sjái aldrei neitt nema tilkynningar um að við ætlum að reyna að hittast þegar hún kemur inn á bloggerinn. Það er alltaf verið að bjóða í partý eða saumaklúbb, hætta við það, hætta við að hætta við og hætta við að hætta við að hætta við og að endingu veit enginn hvort orðið hætta er í oddatölufjölda og þar af leiðandi hætt við eða á sléttri tölu sem sagt boðið stendur. Þar af leiðandi mætir enginn og ef einhver mætir þá er hann/hún orðin/n svo ringlaður að hann hreinlega sofnar í hófinu. Afleiðingarnar verða þá þær að ályktanir þess eðlis að drykkja hafi valdið ástandi viðkomandi fá byr undir báða vængi í stað þess að huga að andlegum ástæðum sem er ringulreiðin á blogger.com. Nú er t.d. búið að bjóða og hætta við saumaklúbb í einhver 10 - 20 skipti og enginn veit lengur hvað hann heitir...

Kveðja

Júpíter

miðvikudagur, nóvember 06, 2002

Það verður víst að hafa það sem sannara reynist og heitir hundurinn víst ekki alveg Nonni og Manni heldur bara manni en þeim er skemmt Borgfirðingum þegar þeir hittast félagarnir Nonni og Manni.
Þessi saga var helvíti góð Bibbi og ég hafði ekki heyrt hana. Ég er alveg að missa tengslin við æskustöðvarnar og sokkinn í sollinn hérna fyrir sunnan. Ég skal bara halda þennan saumaklúbb stelpur mínar!!!!! Ég er verulega heitur fyrir þessu partýi en ég er varla að meika það að vera eini strákurinn úr E bekknum. Kannski að ég hringi í einhverja karlkyns snillinga úr þeim mæta bekk!!!
Talandi um partý og hve margir piparsveinar verða þar þá er vert að minna enn einu sinni á heitasta piparsvein landsins. Hann var reyndar að fá sér hund nú í haust (sumar) og gerir eigandann enn heitari fyrir vikið. Þetta er náttúrulega Helgi Hlynur frá Bogganum. Ég verð að láta fljóta eina hundasögu af hundinum hans sem er alveg mergjuð... Helgi fór í réttir með hundinn og í hvert skipti sem hann dró rollu í dilk kom hundurinn og hamaðist á fæti Helga eins og ólmur og Helgi þurfti alltaf að sparka honum í burtu áður en ákveðinn vökvi myndi óhreinka buxurnar hans. Nú er frá því að segja að Jón, bóndi á Grund, alltaf kallaður Nonni á Grund, þarf að bregða sér bak við stóran klett til að gera þarfir sínar. Hann gerir það að myndarskap og stuttu síðar hverfur hundurinn hans Helga. Helgi var nokkuð ánægður í fyrstu eða allt þar til hundurinn birtist að nýju greinilega eftir viðkomu bak við klett þann er Nonni hafði brugðið sér á bak við. Hundurinn sér eiganda sinn álengdar og verður ánægður að sjá hann og hleypur eins og fætur toga í átt að Helga með brúna tauma í stríðum straumi úr feldinum. Helga líst nú ekki á blikuna og tekur á rás í burtu enda vill hann kannski ekki fá hundinn upp um sig eftir að hundurinn hefur velt sér upp úr Nonni gaf af sér við klettinn. Það var mál manna að Helgi hefði aldrei hlaupið hraðar í manna minnum og er þó af mörgum harða sprettinum að taka. Hundurinn hins vegar fékk það forna en góða nafn Nonni og Manni í kjölfarið.

Stúlkur verði ykkur að góðu og Ásgrímur hefur númerið. Hundurinn fylgir eflaust með ef af verður.....

Kveðja úr blíðu fyrir austan..

þriðjudagur, nóvember 05, 2002

Partý! Ég segi nú eins og maðurinn ,,sjaldan hef ég flotinu neitað" en þar sem ég tók vetrarfríið að mestu leyti undir ölvun og óspektir þá veit ég ekki vel hvernig kvótastaðan er hjá mér um þessar mundir. Þetta er höfðinglegt og falllegt boð hjá þér María og mig dauðlangar að koma. Bæ ðe vei þá sökka mánudagar víst!!! Þá er ég (ef guð hefur lofað) þunnur, illa sofinn og húðlatur. Ég kenni 10 tíma á mánudögum og ég er þeirri stund fegnastur þegar það helvíti er afstaðið. Auf widerzien
Djöfull er ég ánægður með þig María að bjóða bekknum í partý. Verst að maður skuli vera svona fyrir norðan hinn byggilega heim. Ég verð að fara að gera eitthvað í þessu.

Halla má ég ekki stela þessari hænuþraut þinni til að nota í kennslunni? Það er spurning um að koma upp svona þrautalausnum hér til að hafa eitthvað fyrir stafni.